Duglegir stjórnmálamenn.

Ætli sé ekki bara kominn tími á smá pólitík. Ég hef velt aðeins fyrir mér hvort það sé endilega fýsilegt að stjórnmálamenn séu atorkusamir, hamhleypur til verka og það leki af þeim drifkrafturinn eins og þeim “bestu” er stundum lýst. Tökum dæmi. Hvernig starfskraftur væri ökumaður strætisvagns sem hefði ofangreinda kosti sem sína helstu? Myndi hann keyra hraðar, taka leið S1 og S2 saman í einni ferð, stoppa oftar – kannski heima hjá viðskiptavinum eða jafnvel fylgja fólki til sætis í vagninum. Eitthvað held ég að sá starfskraftur yrði ekki langlífur í starfi. Bílstjórinn á fyrst og fremst að halda áætlun og geta brugðist við ef eitthvað óvænt gerist. 

Fólkið sem velur að hasla sér völl á sviði stjórnmála er oftar en ekki einhver félagsmálatröll sem lifa á því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og fá hrós fyrir. Þegar lúsiðnu atorkutröllin komast loks til valda, í bæjarstjórn, á þing eða eitthvað þaðan af verra, þá verða þau auðvitað að setja mark sitt á umræddan vettvang. Þau byrja að framkvæma, byggja, breyta, semja lög o.s.frv. Það er á þessum tímapunkti sem mér finnst mörg tröllanna vera eins og bílstjóri strætisvagns sem keyrir á 150, tekur leið S1 og S2 saman og stoppar við hvert hús. Stundum eru hlutirnir bara í ágætu lagi og mikilvægast að halda áætlun.

Skýrasta dæmið undanfarin ár er meistari Björn Bjarnason. Maður sem fengi mannlýsingu í Íslendingasögu með innihaldi á borð við: fjell aldrei verk úr hendi, berserkur til allra verka, uppfinningasamur og var fyrir Guðlega forsján blessunarlega laus við ágang kvenna. Slíkum manni leiðist hratt og örugglega ef hann er ekki á fullu að gera eitthvað. Þar með finnur hann upp á því að stofna her, leyniþjónustu, vopna lögregluna betur, bara eitthvað svo það líti út fyrir að hann geri eitthvað í vinnunni.  Ég held að miklu farsælla væri að hafa töluverða framkvæmdatregðu, þá væri ekki farið út í framkvæmdir nema þær væru bráðnauðsynlegar. Vandamálið er að fólk með framkvæmdatregðu býður sig ekki fram í þessi störf. Það myndi þó hjálpa að fækka ráðuneytum og auka frí þingmanna. Þannig ynnist ekki tími fyrir nema allra mikilvægustu mál og við fengjum að lifi í friði fyrir óþarfa vinnugleði félagsmálatröllanna.

Vissulega eru mörg störf þar sem fyrrnefndir mannkostir eru eftirsóknarverðir. Embættisstörf held ég að séu bara ekki þeirra á meðal.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband