Menningarhornið.

Er ekki alveg nauðsynlegt að þykjast vera einhver menningarviti í svona bloggi. Annars tekur mann enginn alvarlega. Svo trúverðugleikinn aukist enn frekar ætla ég að vera ömurlega háfleygur og byggja þetta upp eins og útpælda skáldsögu eftir Murakami. Byrja rólega, byggja upp skemmtilega stemmningu nálgast hápunkt og láta söguna svo hverfa fyrir augum lesendans á furðulega fullnægjandi hátt. Dísús! Mér er sjálfum orðið flökurt eftir örfáar línur – komaso – þú getur þetta.   

Byrjum á kvikmyndum. Ég hef séð þær nokkrar síðustu mánuði. Þær helstu eru líklega: The Last King of Scotland, The Departed, Little Miss Sunshine, Blood Diamond, Babel og The Prestige. Hvar byrjar maður? Allt eru þetta nokkuð umtalaðar myndir og margar þeirra tilnefndar til einhverra Óskarsverðlauna. Er ekki “bottoms up” alltaf gott?   

Síst þessara þótti mér The Prestige, uppbyggingin góð og leikurinn en fléttan allt of mikill gáfumannarembingur að hætti Laxnesss. Hægt var að hlæja og skemmta sér á Little Miss Sunshine en það telst nú ekki frumlegt að gera grín að meintri heimsku Bandaríkjamanna. Næst kemur The Departed. Æ, nú móðga ég Davíð, það er eitthvað við Scorsese sem getur farið voðalega í taugarnar á mér. Ég fæ svona tilfinningu eins og þegar Bill Murray í hlutverki Phil Connors var að reyna að tæla Ritu í tuttugasta skiptið, hann kunni allar línurnar og frasana en það vantaði alltaf neistann. Þetta á reyndar ekki við um allar hans myndir undanfarið, t.d. þótti mér Aviator fín. Þá fer nú að styttast í jákvæðnina. Blood Diamond kom á óvart og ánægjulegt að sjá að hann Leo er bara ágætis leikari og getur leikið sannfærandi skúrk. Næst er það Babel, fannst hún mjög fín. Mögulegt er þó að maður ofmeti hana vegna þess að hún er ekki eftir bandarískan leikstjóra. Það getur verið svínerfitt að hafa stjórn á fordómunum.   

Myndin sem mér þykir bera af er loks The Last King of Scotland, frábær mynd, vel leikin, áhugaverð saga og sögusvið og ég verð að vera ósammála einhverjum gagnrýnandanum sem sagði að skoska lækninum væri ofaukið. Svona sögur eiga alls ekkert að vera sagnfræðistagl að mínu mati og sögulegur skáldskapur ef til vill besta formið til að koma slíkum verkum frá sér á trúverðugan hátt. Alveg er það ótrúlegt að þessi mynd hafi ekki hlotið Óskarinn, þoli ekki svona aumingjagæsku, réttlæta gamalt ranglæti með nýju og veita Scorsese verðlaun sem hann átti ekki fyrir. Þeir ættu bara að veita honum heiðursverðlaun rétt áður en hann deyr eins og venja er.   

Mikið sakna ég nú samt uppáhalds kvikmyndahússins míns, sem er Øst for Paradis. Eins og upptalningin sýnir er lítið um annað en “main stream” myndir enda aðrar vandfundnar á Íslandi. Þegar ég bjó í Árósum fór ég að meðaltali einu sinni í viku í Øst for Paradis og sá alls kyns myndir, sumar alveg frábærar og á öðrum gat ég ekki annað en yfirgefið húsið í hálfleik eða fyrr.   

Hér lýkur minni lengstu bloggfærslu hingað til og verður framhald síðar. Maður klárar ekkert skáldsögu í einum rikk, það þarf að hætta við einhvern kaflann, leggja bókina frá sér og fara að sofa. Með þessum hætti meltist betur það sem lesið er.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband