Að gefnu tilefni.

Dagsetning:

7. og 8. Júlí.

Völlur:

Kópavogsskóli, heimavöllur Davíðs.

Keppni:

Körfuboltaeinvígi milli Stefáns og Davíðs.

Fyrirkomulag:

Einn á einn "streetball", 1 stig fyrir innan þriggja stiga línuna og 2 fyrir utan, vinna með tveimur stigum.

Veður:

Sól, lygnt og 17 stiga hiti.

                                                                      Tölfræði:

                                    Davíð Ásgrímsson         Nafn          Stefán Freyr Guðmundsson

                                              30                        Aldur                         30

                                            195 cm                  Hæð                        178 cm

                                            303 cm                 Faðmur                    155 cm

                                            315               Meistaraflokksleikir           0

                                            215                 Leikir í úrvalsdeild            0            

                                           25 ár                  Æft körfubolta í             7 ár

                                  Körfuboltaþjálfari             Starf                   Skrifstofumaður

                                              8                        Leikur 1                         10

                                              6                        Leikur 2                           8

                                              1                        Leikur 3                           7

                                              7                        Leikur 4                           5

                                              7                        Leikur 5                           4

                                                              2                                   Sería                                        3            


Sögulegar sættir.

Sögulegar sættir hafa náðst og lifrarkvikindið er komið á sinn stað. Það verður haldið upp á það með viðeigandi hætti næstu helgi. Í öðrum fréttum er að ég er byrjaður að vinna í Landsbankanum. Fyrsti vinnudagur var á föstudag og byrjunin frekar róleg sem von er. Maður reynir bara að lesa sér eitthvað til og svona, en líklega fer ég að gera eitthvað af viti á morgun.

Lifrarfréttir.

Eins og dyggir lesendur vita hefur slegið í brýnu milli mín og Lifrarinnar eftir Noregsferðina góðu. Ég hafði ekkert frétt af henni fyrir utan að ég vissi að hún fékk ýmis gylliboð og þar á meðal að fá að starfa sem heili til reynslu. Í gær fékk ég nafnlaust bréf sem innihélt myndbandsupptöku af næsta þætti Kvöldgesta Jónasar. Vissulega var áfallið mikið þegar ég komst að því að Lifrin hefur starfað sem heilinn í Davíð félaga mínum síðustu vikuna. Hér birtast brot úr viðtalinu:

Jónas: Segðu mér Lifur, hvernig hafa umskiptin verið?

Lifur: Sko, þetter bara helvíti fínt sko, miklu minna að gera og svona og mar fær að kynnast fullt af nýjum hlutum. Ég er líka búnað fattað handbolti er bara bakhrindingar og peysutog og körfubolti og rapp er málið sko.

J: Er það satt sem maður heyrir að málfar þitt hafi breyst og verði æ líkara málfari unglinganna sem þú, ja eða Davíð, þjálfið alla daga?

L: Æ, jú, kannski, en það er bara fínt mar, það er ekki alltaf hægt að tala eins og Íslendingabók mar, þetta verður líka að meika smá sens sko, svo getur mar líka kvótað svo mikið í Hómer, það gefur miklu meira ríspekt, sko, mar horfir auvitað á Hómer alltaf þegar mar er ekki að þjálfa, sko.

J: Já, hvað segirðu, er búið að gefa Hómerskviður út á DVD formi?

L: [Tómt starandi augnaráð, hægra munnvikið dregst í átt að hægri nasavængnum sem brettist í átt að auganu, augabrúnir krumpast, svipurinn aftur í samt lag, tyggjókúla blásin, sprengd, tuggið tvisvar og svarað] Hómerskviður? Skilekki, ertu að meina kviður svona eins og magi eða? Hómer er auvitað með ge-egan maga sko.

J: [Ráðvilltur eitt andartak, síðan vandræðalegur] Þú átt sem sagt við Hveravalla-Hómer, altso, Hómer nokkurn Simpson?

L: [Hrokafullt, hneykslað svar] Já, enekki hvað?

J: Nú hefur verið ansi stirt milli þín og fyrrum hýsils, Stefáns Freys. Er einhver von til að þið náið sáttum?

L: Sko, eins og staðan er núna langar mér ekkert aftur til hans. Ég er alveg búinn að finna mig uppá nýtt sko, í þessu nýja hlutverki. Það er ótrúlega flippað að vera heili, sko, mar getur nebblega gert svo ógisslega mart ef mar bara vill, en ég vill bara ekki gera neitt og þa er líka bara kúl, Davíð er nebblega ekki að kvarta neitt og mér hlakkar bara til hvers dags eins og enginn sé morgundagurinn, sko, en eini gallinn er auvitað að ég er í öðrum blóðflokki og verð því að hætta í næstu viku, við Davíð erum gegt ósátt, þetta hefur verið svona win-win situation hjá okkur sko, en ætli ég fari ekki aftur til Stefáns og núna neyslunni ríkari.

J: Reynslunni?

L: Já eða það.

J: Við þökkum Lifrinni fyrir innilegt og gott spjall og kveðjum í kvöld. Passið ykkur á myrkrinu.


Þorgríms þáttur Þráinssonar.

Þá er ég loksins búinn að átta mig á þessu öllu saman. Áberandi hefur verið undanfarið hve pólitísku plottin hafa verið léleg og illa ígrunduð og ég hef komist að því hvað veldur. Þetta er auðvitað allt Þorgrími Þráins og reykingarvarnarfasistunum að kenna. Hvernig á að vera hægt að plotta í bakherbergjum sem engan hafa reykinn. Fólk sér minnstu krumpur og svipbrigði hvers annars og líkamslyktin alveg yfirþyrmandi í litlu rými eftir margra klukkustunda plottfundi. Síðan þarf alltaf að gera hlé fyrir reykpásur og þá dettur ryþminn alveg úr plottinu. Plottin eru meira að segja orðin svo léleg að fólk er farið að sjá í gegnum Moggalygina, sem hefur þó verið einn af föstustu punktum þjóðlífsins í tugi ára. Áður en við missum endanlega tökin á þessu og endum í ógöngum eins og opinni og heiðarlegri stjórnsýslu mælist ég til að Þorgrímur verði sendur í útlegð til Færeyja og fólk hætti þessu pukri og fari aftur að reykja þar sem því sýnist. Þá ekki síst í bakherbergjum.

Reiðilestur.

Uss, þetta er nú orðið meira ruglið í pólitíkinni undanfarið og alveg ótrúlega mikið að gera fyrir bloggara-sem-dreymir-um-að-verða-virtir-samfélagsrýnar-og-vera-vitnað-til-í-mogganum-og-blogga-þar-með-af-áfergju-um-allt-markvert-sem-gerist. Málið er bara að þessir bloggarar skrifa allir sama pistilinn og þar sem ég hef óbeit á slíkri endurtekningu og ófrumlegheitum hef ég reynt að halda í mér. Núna er bara eitt af þessum skiptum sem ég verð að leggja orð í belg varðandi tvö mál.

Í fyrra lagi eru veikindi. Ég er yfirleitt afar umburðarlyndur gagnvart veikindum og held nú að flest allir séu meira eða minna veikir. Hins vegar er það nú þannig að sum veikindi eða fötlun eiga verr við tiltekin störf  en önnur. Geimfari má t.d. ekki hafa fengið heilablóðfall, barnaníðingur sem hefur verið útskrifaður af stofnun verður ekki dagmamma og dvergur verður tæpast atvinnumaður í NBA - leiðinlegt, en svona er þetta bara. Ekki veit ég nú hvað hefur hrjáð Ólaf F. en við höfum áður reynt menn með geðbresti í valdastöðum og enduðum á að koma þeim manni á verndaðan vinnustað áður en allt færi endanlega fjandans til. Vonandi er nú Ólafur ekki eins illa haldinn en það hlýtur að vera fullkomlega eðlilegt að setja einhver spurningamerki við þessi veikindi.

Í seinna lagi fer þessi helvítis tepruskapur varðandi mótmæli alltaf hrikalega í taugarnar á mér. Nú rís plebbi eftir plebba upp og fordæmir "skrílslætin" á pöllum ráðhússins í dag. Fólk er í fullkomnum rétti til að láta í ljós skoðanir sínar og án borgaralegrar óhlýðni værum við í besta falli enn á miðöldum. Auðvitað hitnar fólki í hamsi og eitthvað gengur aðeins of langt, en það hlýtur að vera skárra en að láta allt yfir sig ganga. Hvað ætla plebbarnir að gera þegar kemur til þess að Hæstiréttur verður færður til Valhallar? Sussa á skrílinn?

Reiðilestri dagsins er hér með lokið.


Uppsögn.

Ég kom heim frá Noregi í gær og varð fyrir áfalli þegar ég kom heim og á borðinu beið mín uppsagnarbréf frá Lifrinni:

"Kæri Stefán.

Í gegnum tíðina hefur okkur yfirleitt komið ágætlega saman, fyrir utan einstaka ágreining. Ég hafði því vonast til að samstarf okkar entist ævilangt. Eftir nýliðna Noregsferð hef ég hins vegar sannfærst um að þetta samstarf byggir á of veikum grunni. Í Þrándheimi var ítrekað gengið framhjá mínum kröfum og ég algerlega niðurlægð. Mér sýnist ég því tilneydd til að taka öðru tilboði þar sem mér er lofað miklu meiri áhrifum, auk þess að fá að taka við hlutverki heilans fyrsta hálfa árið.

 Kær kveðja og takk fyrir góðar stundir, Lifrin."

Ég er auðvitað í rusli yfir þessu og hef þegar leitað til Ásmundar Stefánssonar ríkissáttasemjara. Hann tók vel í að reyna að miðla málum, ætlaði að setja þetta ASÍ-kjaftæði á ís um sinn og reyna að bjarga því sem bjargað verður. Ég læt ykkur vita hvernig fer.

 


Óreiða.

Æ, hvað ég yrði lélegur bókasafnsfræðingur. Mér datt í hug að henda inn hérna spurningum sem ég samdi fyrir Drekktu betur pub-quizið fyrir nokkru. Auðvitað hafði ég ekki vistað lokaútgáfuna á réttum stað. Hún varð eftir á vinnutölvunni sem er líklega búið að "strauja" núna. Óreiðan vinnur alltaf að lokum. Ojæja, ég verð líklega spyrill aftur á næstu mánuðum og reyni þá að muna eftir að henda keppninni inn. Annars náðum við Formaðurinn ágætum árangri á tímabili, vorum t.a.m. tvisvar sviknir um bráðabana vegna dómaraskandals. Annað skiptið ætlaði Formaðurinn að vaða í spyrilinn enda ekki á hverjum degi sem hann fær ekki rétt fyrir Bítlaspurningu. Síðan þá hefur okkar ástkær formaður alltaf mætt í bol með áletruninni "Harrison var 17 í Hamborg!".

Þar sem ég svík sauðtrygga lesendur um spurningarnar mínar ætla ég í sárabætur að koma með eina sem var síðasta föstudag. Það er nefnilega ekki á hverjum degi sem menn dúkka upp með stærðfræðiþraut í Drekktu betur, enda "krádið" ekki beint raunvísindasinnað. Spurningin var eitthvað á þessa leið:

Fjórum hlutum, A, B, C og D er pakkað í fjóra kassa, einum í hvern, þannig að ekki er hægt að greina þá sundur. Síðan fær hópur fólks að giska á  hvaða hlutur er í hvaða kassa. Af 123 þátttakendum eru 43 ekki með neina ágiskun rétta, 36 giska á einn hlut réttan og 34 ramba á tvo rétta hluti. Hve margir giska á þrjá og fjóra rétta hluti?


Þrándheimur!

Oftast reyni ég að halda kúlinu og tilfinningaseminni í lágmarki þó ég sé spenntur. Það gengur bara ekki núna, ég er eins og lítill krakki og get ekki beðið eftir að komast til Þrándheims á miðvikudag. Já! - Þrándheims af öllum stöðum. Þangað er stefnan einmitt tekin til að fylgjast með fyrstu þremur leikjum Íslands á EM í handbolta. Í fyrra hætti ég við að fara til Þýskalands á HM af því það var spilað í svo litlum og leiðinlegum þorpum - en núna lítur þetta allt miklu betur út, við erum að tala um norska Djammið með hástaf. Að vísu eru Norðmenn almennt hrútleiðinlegir, tala asnalega, loka sjálfsagt börunum kl. 11 og svo skilst mér að þeir selji ekki tvöfaldan á barnum. Mitt fyrsta verk verður því að sjálfsögðu að panta tvo einfalda viskí og hella úr öðru glasinu í hitt. Ef ekkert heyrist frá mér næstu 3 árin þá er það sjálfsagt vegna þess að ég verð vistaður á norsku meðferðarstofnunni "Institut for sinnsyke alkaholikere som drikker dobbel sjuss".

Við verðum 6 sem förum saman og kannski ekki hægt að segja að við séum fullir bjartsýni enda ástæða fyrir því að við völdum að sjá fyrstu þrjá leikina. Fyrsti dagurinn fer síðan í að útskýra reglur handboltans fyrir einum ferðafélaganum og kenna öðrum þjóðsönginn en eftir það ættum við að vera færir í flest. Sigur á Svíum í fyrsta leik myndi síðan fullkomna ferðina.


Jólin.

Jólin voru ljómandi fín að vanda. Helst maður hafi lesið minna en vanalega, sem skrifast helst á reikning ættingja og vina. Af einhverjum sérkennilegum ástæðum vilja vinir mínir og ættingjar endilega vera niðurlægðir í hverju spilinu á fætur öðru á hátíðisstundum - Freud á örugglega eitthvað 30 stafa nafn yfir þetta. Ég gat auðvitað ekki valdið þessu fólki vonbrigðum og uppfyllti þarfir þeirra til hins ýtrasta.

 Einhverjar bækur hef ég þó komist yfir að lesa. Las fyrst Sandárbókina, Gyrðis Elíassonar. Afar vel skrifuð og hnitmiðaður texti, sem höfðar mjög vel til mín. Hins vegar fannst mér tilfinnanlega vanta uppá plottið. Örugglega eru margir rithöfundar þannig að þeir bara verða að skrifa til að halda heilsu en sleppið því nú endilega að vera að gefa þetta út ef engin er grunnhugmyndin að fléttu eða plotti, svo maður sletti nú á dönsku. Einnig varð Argóarflísin fyrir barðinu á mínum lestri og ég held barasta að Sjón sé að komast í flokk minna eftirlætishöfunda. Líkt og Gyrðir er textinn sérstaklega lipur og skemmtilegur, auk þess sem hann hafði fyrir því að splæsa í smá plott. Þriðja og besta sagan sem ég las var klassíkin Alexis Sorbas eftir Nikos Kazantzakis. Alger snilld og alls ekki vel til þess fallin að svæfa villidýrið í mönnum. Þetta er sjálfsagt ein af síðustu bókunum sem menn finna á meðferðarheimilum!

Vegna þessara sálfræðikvilla sem ásækja ættingja mína og vini á ég því enn nokkuð eftir af jólalestrinum og á því góðar vikur framundan.


Áramótaheit.

Greyið lesendur mínir, eru þið búin að hamast á "refresh" takkanum í marga mánuði og ekkert gerist. Þurrkið nú tárin og skiptið um F5 takka. Ég ætla að blogga í annað kortér. Það hlýtur að vera við hæfi að byrja á áramótaheitunum. Eins og velflestir hafa reynt á eigin skinni þá er aðeins eitt öruggt með áramótaheit - þau munu ekki ganga eftir. Í ljósi þessa mun ég strengja eftirfarandi heit fyrir árið 2008:

  1. Byrja að reykja.
  2. Vera drukkinn minnst 100 daga.
  3. Prófa heróín.
  4. Ganga í Sjálfstæðisflokkinn.
  5. Fara að styðja KR.

Þá er bara að láta hendur standa fram úr ermum. Lesendur sjá að þetta fer stighækkandi og mun ég byrja hægt og reyna að vinna mig alla leið í atriði 5 eftir því sem líður á árið.


Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband