Hetjuklappið.

Á morgun mun Ingvar verða þess heiðurs aðnjótandi að fá hetjuklapp. Fyrir þá sem ekki vita við hvað er átt fylgir stutt lýsing.

Sjáið fyrir ykkur sal fullan af nemendum í erfiðu hverfi í einhverri borg Bandaríkjanna. Þetta er í lok annar. Í upphafi sömu annar var ráðinn mjög sérstakur kennari til skólans, sem beitti öðruvísi aðferðum en áður þekktust. Þetta fór mjög í taugarnar á einhverjum voða snobbuðum sem ræður miklu og verður til þess að kennarinn er rekinn. Við útskriftina stendur óstýrilátasti nemandinn upp, sem auðvitað er algert séní en átti mjög erfiða æsku, og flytur magnþrungna ræðu til varnar kennaranum. Gott ef ekki er vísað í stjórnarskrána og "the founding fathers". Meðan ræðan er flutt breytast andlitssvipir úr svipum efasemda í svipi sannfæringar og áræðni. Nema auðvitað á voða snobbaða gæjanum. Í lok ræðunnar standa nemendur á fætur einn af öðrum og taka til við hetjuklappið. Hér er mjög mikilvægt að í upphafi byrji aðeins einn að klappa, standi upp örlítið hikandi og klappi fremur veikt. Smám saman verður hann ákveðnari eftir því sem aðrir bætast við og loks klappa allir og fagna. Á þessu augnabliki birtast eins og fyrir slysni með stuttu millibili vonsvikni snobbarinn og bandaríski fáninn áður en klippt er í víða mynd af nemendunum í klappandi alsælu.

Þetta á Ingvar einmitt skilið á morgun. Hann ætlar að horfast í augu við sinn mesta ótta. Strákurinn ætlar að mæta í badminton og spila við síðuhöfund. En eins og alþjóð veit tapaði Ingvar illa um daginn og þorði ekki að mæta í gær, þriðjudag. Á tímabili greip fórnarlamdið til þess auma ráðs að gera sig breiðan á kostnað annarra til að fela eigin ótta. Þetta hefur hann yfirstigið og ætlar að horfast í augu við skrímslið eins og Paris Hilton að gleypa köngulær.

 P.S. Mikilvægt er að rugla hetjuklappinu ekki saman við kjánaklappið.


Núllið

Guðlaugur Þór heilbrigðisráðherra og Kristján Jarðgöng Möller samgönguráðherra! Minkur í hænsakofa - einhver? Jæja, það eiga allir rétt á að byrja í núlli. Ég skal því bíða með að gagnrýna nýja ríkisstjórn.

Kosningatörn.

Það held ég að sé kominn tími til að vakna af kosningadvalanum. Enn eitt skiptið var ég að vinna að kosningasjónvarpinu, búinn að vera síðan 1998. Fer bráðum að geta kallað mig reynslubolta í faginu. Alltaf vinnur maður meira en áður, sefur minna og lofar að gera þetta aldrei aftur. Síðan þegar búið er að sofa í viku finnst manni þetta bara hafa verið helvíti gaman.

Úrslitin voru svona og svona, hefðu getað verið betri. Niðurstaðan er alla vega sú að Jóhann Snorri vann örugglega, var með ótrúlega góða spá. Fervikasumma hans var ekki nema 10,14. Þar sem Íslandshreyfingin er ekki inn í spánni var mögulega minnsta fervikasumma um 2,2. Góðu fréttirnar eru að ég varð annar (20,34) og fékk betri útkomu en Þórður (68,74), sem þar með þarf að blæða fyrir drykki á Hansen við fyrsta tækifæri. Starfsmaður Umhverfisráðuneytisins, fyrrum fréttamaður, blaðamaður og stjórnmálasérfræðingur Sögufjelags Hafnarfjarðar, Guðmundur Hörður, endaði langneðstur með 89,74 og munar þar mestu um 35% fylgisspá fyrir Samfylkinguna! Þátttakendur geri því svo vel að borga Jóhanni kippu hver. Ég mun sjá um að rukka þá sem búa erlendis og koma verðmætum verðlaununum til sigurvegarans. Þess má geta fyrir sérstaka áhugamenn að niðurstöður voru reiknaðar út í forritinu alvonda, stundum nefnt Excel.

Já og svo voru úrslitin í þingkosningunum þreytt.


Menningarhornið.

Er ekki alveg nauðsynlegt að þykjast vera einhver menningarviti í svona bloggi. Annars tekur mann enginn alvarlega. Svo trúverðugleikinn aukist enn frekar ætla ég að vera ömurlega háfleygur og byggja þetta upp eins og útpælda skáldsögu eftir Murakami. Byrja rólega, byggja upp skemmtilega stemmningu nálgast hápunkt og láta söguna svo hverfa fyrir augum lesendans á furðulega fullnægjandi hátt. Dísús! Mér er sjálfum orðið flökurt eftir örfáar línur – komaso – þú getur þetta.   

Byrjum á kvikmyndum. Ég hef séð þær nokkrar síðustu mánuði. Þær helstu eru líklega: The Last King of Scotland, The Departed, Little Miss Sunshine, Blood Diamond, Babel og The Prestige. Hvar byrjar maður? Allt eru þetta nokkuð umtalaðar myndir og margar þeirra tilnefndar til einhverra Óskarsverðlauna. Er ekki “bottoms up” alltaf gott?   

Síst þessara þótti mér The Prestige, uppbyggingin góð og leikurinn en fléttan allt of mikill gáfumannarembingur að hætti Laxnesss. Hægt var að hlæja og skemmta sér á Little Miss Sunshine en það telst nú ekki frumlegt að gera grín að meintri heimsku Bandaríkjamanna. Næst kemur The Departed. Æ, nú móðga ég Davíð, það er eitthvað við Scorsese sem getur farið voðalega í taugarnar á mér. Ég fæ svona tilfinningu eins og þegar Bill Murray í hlutverki Phil Connors var að reyna að tæla Ritu í tuttugasta skiptið, hann kunni allar línurnar og frasana en það vantaði alltaf neistann. Þetta á reyndar ekki við um allar hans myndir undanfarið, t.d. þótti mér Aviator fín. Þá fer nú að styttast í jákvæðnina. Blood Diamond kom á óvart og ánægjulegt að sjá að hann Leo er bara ágætis leikari og getur leikið sannfærandi skúrk. Næst er það Babel, fannst hún mjög fín. Mögulegt er þó að maður ofmeti hana vegna þess að hún er ekki eftir bandarískan leikstjóra. Það getur verið svínerfitt að hafa stjórn á fordómunum.   

Myndin sem mér þykir bera af er loks The Last King of Scotland, frábær mynd, vel leikin, áhugaverð saga og sögusvið og ég verð að vera ósammála einhverjum gagnrýnandanum sem sagði að skoska lækninum væri ofaukið. Svona sögur eiga alls ekkert að vera sagnfræðistagl að mínu mati og sögulegur skáldskapur ef til vill besta formið til að koma slíkum verkum frá sér á trúverðugan hátt. Alveg er það ótrúlegt að þessi mynd hafi ekki hlotið Óskarinn, þoli ekki svona aumingjagæsku, réttlæta gamalt ranglæti með nýju og veita Scorsese verðlaun sem hann átti ekki fyrir. Þeir ættu bara að veita honum heiðursverðlaun rétt áður en hann deyr eins og venja er.   

Mikið sakna ég nú samt uppáhalds kvikmyndahússins míns, sem er Øst for Paradis. Eins og upptalningin sýnir er lítið um annað en “main stream” myndir enda aðrar vandfundnar á Íslandi. Þegar ég bjó í Árósum fór ég að meðaltali einu sinni í viku í Øst for Paradis og sá alls kyns myndir, sumar alveg frábærar og á öðrum gat ég ekki annað en yfirgefið húsið í hálfleik eða fyrr.   

Hér lýkur minni lengstu bloggfærslu hingað til og verður framhald síðar. Maður klárar ekkert skáldsögu í einum rikk, það þarf að hætta við einhvern kaflann, leggja bókina frá sér og fara að sofa. Með þessum hætti meltist betur það sem lesið er.

Hitt og þetta.

Í pistli kvöldsins ætla ég að forðast að ræða pólitík. Ég hef tekið eftir að ég er búinn að vera allt of pólitískur undanfarið. Það kom líka í ljós hversu illa ég skil þá tík, þegar ég hélt að fylgi VG myndi minnka við það að sauðagæran fauk af á flokksþingi þeirra og reglugerðablætið kom í ljós.  

  

Enn og aftur hefur sannast hið fornkveðna: “Því verr gefast heimskra manna ráð sem fleiri Garðbæingar koma saman”. Alltaf verið gáttaður á fólkinu í þessum bæ. Ofaldir uppar á sterum – hlýtur að vera gaman að slást við svoleiðis fólk. Sjitt, nú verð ég örugglega laminn næst þegar ég fer á Rex (!), maður verður að passa hvað maður segir.    

                                                                                                                                                          

Í almennum fréttum er það helst að við Formaðurinn og Upplýsingafulltrúi Sögufjelags Hafnarfjarðar verðum æ betri í Pub-quiz á Grand Rokk og stefnir í öruggan sigur okkar innan skamms. Við þurfum bara að hitta á keppni með aðeins fleiri íþróttaspurningum og mikið færri spurningum um klassíska tónlist, ballet og lækjarsprænur einhvers staðar úti á landi. Síðan mættu bókmenntaspurningarnar alveg við því að fjalla um annað en þunglynd íslensk 19. aldar ljóðskáld. Og já ég var einmitt kosinn Upplýsingafulltrúi Sögufjelagsins á Aðalfundi um daginn - án þess að vera viðstaddur.

Klám.

Æi, hvað getur maður sagt? Hvernig getur fólkið sem barðist fyrir rétti Falun Gong liða til að tjá sig og athafna barist gegn rétti fólks til að ræða klám? Eru þessir pólitíkusar kannski órökréttir? Það læðist að manni sá grunur að sumir velji sér fyrst heppilega skoðun og tíni síðar til misgóð rök henni til stuðnings. Svolítið svona eins og Morfís. Nei, núna er ég kominn fram úr mér. Það er enginn svo einfaldur að nota einhver rök í einu máli og hafna þeim í því næsta, bara eftir því hvort efnið er losti eða leikfimi. Maður verður nú að hafa trú á þeim sem stjórna... – eða hvað? Þetta er reyndar oft sama fólkið og hefði hýst Salman Rushdie á sínum tíma eftir útgáfu Söngva Satans, en fordæmdi teikningar Jótlandspóstsins. Það hafði nú varla með það að gera að Rushdie hafði fengið Booker verðlaunin og Jótlandspósturinn er sveitalegt danskt dagblað?

Keppni - kjörstöðum að loka.

Í ljósi frétta af þingi VG boða ég lokun á nýskráningar í kosningakeppnina. Annað eins pólitískt sjálfsmorð hef ég ekki séð síðan við fórum í stríð við Írak. Írak drap Framsókn og Netlöggan VG. Föstudagur 2. mars verður síðasti dagurinn. Auk þess veit ég hve óheiðarlegir sumir félaga minna eru, segjast þurfa aðeins meiri tíma til að hugsa sig um, en ætla auðvitað ekki að skila inn spá fyrr en daginn fyrir kosningar.

Keppni.

Fyrir um viku síðan sat ég á Súfistanum í Hafnarfirði, framdi myrkraverk á tölvuna gegnum forritið Delphi og drakk te. Þá sest fyrrum bekkjarfélagi minn og persónuverndarinn Þórður Sveinsson við borðið. Ekki var annað við hæfi en að ræða pólitíkina í þaula. Þar sem ekkert var spunnið í rökræður um álver – við enda sammála í þeim málaflokki – þá var meira rætt um komandi þingkosningar. Daginn áður höfðu birst kannanir sem gáfu til kynna mikið fylgi á vinstri vængnum og fallna ríkisstjórn. Eins og oft áður þegar menn eru ekki alveg sammála um hvernig hlutir þróist datt mér í hug að setja upp veðmál!  

                                                                      

Það hljóðaði upp á að hvor um sig spáði fyrir um landsfylgi flokkanna fimm sem nú eru á þingi. Sigurvegari er sá sem hefur minnstu fervikasummuna frá réttum úrslitum og þarf hinn að blæða fyrir áfengið eina kvöldstund á Hansen. Spárnar voru:

ÞS: B-8%, D-34%, F-7%, S-32% og VG-19% annars vegar og                                                     SFG: B-11%, D-36%, F-6%, S-29%, VG-18% hins vegar.    

 

Ástæðan fyrir að ég nefni þetta hér er í fyrsta lagi svo ég gleymi þessu ekki og í öðru lagi að ég vil bjóða báðum lesendum bloggsins í sams konar keppni.Cool Reglurnar eru þannig að einungis má giska á landsfylgi þessara fimm flokka,  í heilum prósentum og summan verður að vera 100%. Sá vinnur sem hefur minnsta summu fervika frá réttum úrslitum. Hver keppandi leggur kippu undir sem sigurvegarinn hlýtur að launum.

Hnit.

Ég hef öðru hvoru tekið próf á netinu sem segir mér hvar ég stend í pólitíkinni. Það er svo sem ekkert nýstárlegra en önnur sjálfspróf – segir þér einfaldlega það sem þú vilt heyra, en það er stundum gaman að líta í spegil. Prófið er hér. Ætli ég hafi ekki tekið prófið u.þ.b. einu sinni á ári síðustu ár og alltaf verið á svipuðum slóðum. Þó má greina smá þróun, held ég hafi byrjað í kringum (-6, -6), með einhverjum skekkjumörkum, og færst örlítið suð-austur með árunum. Þetta árið endaði ég í (-4.38, -8.51).

politicalcompasspoliticalcompass2 

Stóra spurningin er: verð ég orðinn hægri-sinnaður eftir 20 ár? Veit ekki, efa það einhvern veginn. Hitt er ljóst að ég verð sífellt þreyttari á stjórnvöldum og yfirvaldi almennt, svo suðurferðin er eðlileg. Stóra vandamálið er aftur á móti sú staða að ég veit ekki um nokkurn stjórnmálaflokk sem fellur nærri þessum hnitum og því þarf ég að nota gömlu góðu útilokunaraðferðina við kosningarnar í vor.

Lesblinda.

Hvor síðan ætli fái fleiri heimsóknir, http://lesblinda.is/ eða http://lesblidna.is/? Æ, var þetta yfir strikið? Það er bara eitthvað svo skemmtilegt við svona grín. Held að uppáhaldsbrandarinn minn sé:  

"Have you heard about the dyslexic satanist, who sold his soul to santa?"  

Annars fékk ég bendingu um daginn að erfitt væri að setja inn "comment" ef maður er ekki skráður á moggablogg. Held ég hafi lagað stillingarnar svo Davíð ætti að geta látið gamminn geysa - ég er strax farinn að sjá eftir að hafa breytt þessu.Errm  

Hvað á maður að segja núna þegar HM er lokið? Kerfið er asnalegt, of margir leikir, of oft stórmót, hinir of stórir og margir og dómararnir ekki á okkar bandi svo maður vitni í Baggalútsmenn. Þjóðverjarnir eru alla vega góðir Heimsmeistarar. Og hver verður næsti þjálfari Íslands? Hef heyrt minnst á Dag Sigurðsson, veit ekki, mér finnst þjálfarar þurfa meiri fjarlægð frá leikmönnum. Ég mæli með Bengt Johanson.

 


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband