Ríkisrekstur.

Það hefur mikið verið rætt um RÚV undanfarið og ríkisrekstur. Það fékk mig til að velta einu fyrir mér. Gefum okkur að hagfræðin um ríkisrekstur sé rétt, þ.e. ríkið reki allt verr en einkaframtakið, drepi niður samkeppni og hirði loks mjög svo minnkaðan gróða sem annars fengi að fljóta óhindrað um hagkerfið. Af hverju látum við ríkið þá ekki reka allt sem er vont? Hvernig væri að láta ríkið reka ekki bara ÁTVR heldur líka FVR eða Fíkniefnaverslun Ríkisins? Ég sé síðan fyrir mér ríkisrekin spilavíti, væri mjög hentugt. Fjársýsla Ríkisins gæti verið beintengd við spilavítið og ríkisstarfsmenn með spilafíkn bara fengið launin á reikning í spilavítinu. Gleðihús Ríkisins myndi að sjálfsögðu fylgja með. Að auki yrði allt eftirlit einfaldara, en það er líklega ekkert til að treysta á, sbr. Byrgið. Til að hámarka árangurinn þyrftu að sjálfsögðu úr sér gengnir stjórnmálamenn að ráðast í stöður yfirmanna í þessum fyrirtækjum, sem myndi aftur opna möguleikann á að ráða loks hæft fólk í Seðlabankann og utanríkisþjónustuna – ég myndi reyndar ekkert vera að stóla á það. Þessi tilhögun myndi rústa undirheimamarkaðnum og væntanlega gengju þeir hlið við hlið Ari Edwald forstjóri 365 og Geiri Goldfinger í mótmælagöngu 1. maí.

Höfuð talin.

Eðlilega er maður með hugann við handboltann þessi dægrin. Hér kemur því léttur pistill gegn höfðatölubullinu. Af hverju ættum við ekki að vera betri í handbolta en þjóðir eins og Portúgal, Grikkland, Búlgaría og Svíþjóð? Allt eru þetta þjóðir sem ekki komust á HM og standa okkur langt að baki í þessari göfuðu íþrótt. Lítum á hvernig umhverfið fyrir handboltauppeldi er á Íslandi annars vegar og löndum eins og ofantöldum hins vegar. Á Íslandi er mikil handboltamenning, öll bestu ungmennin stunda handknattleik, þekkingin er til staðar og frá unga aldri eigast þeir bestu við innbyrðis. Voru ekki Logi Geirs og Ásgeir Örn í sama bekk? Alla vega sama skóla.   

Annars staðar fara þau ungmenni sem hafa mestu hæfileikana til íþrótta í fótbolta, körfubolta, íshokkí, frjálsar, tennis eða eitthvað álíka. Ef þau hafa ekki hæfileika í þessum greinum er möguleiki á að þau endi í handbolta. Þegar þau síðan skara fram úr í handboltanum tekur við eyðimerkurganga upp alla yngri flokkana þangað til almennileg keppni fæst. Það er ekki fyrr en eftir 16 ára aldur sem liðin fara að þéttast aðeins, þ.e. góðu leikmennirnir hætta að vera langbestir í sinni sveit og fara að safnast í sömu liðin og byrja að etja kappi við önnur góð lið. Þetta gerist fyrir fermingu á Íslandi.   

Höfðatalan er nefnilega ekki allt, það skiptir ekki minna máli í hvaða íþróttir þeir hæfileikaríkustu fara og hvernig samkeppni þeir fá. Með þessu er ég ekki að reyna að gera lítið úr handbolta sem íþrótt, þetta eru bara staðreyndir. Það er heldur ekki okkur að kenna að hinar þjóðirnar hafa ekki uppgötvað þessa frábæru íþrótt. Skák er önnur svona “íþrótt” sem hefur flest það sama til að bera hérna og handboltinn. Munurinn er reyndar sá að erlendis er ekki samkeppni við einhver hliðarafbrigði af skák. Reyndar vantar líka afreksmannastefnu í skák hérna en það er annað mál – lögmálin eru þau sömu. Ég hafna því alfarið höfðatölurökum í greinum á borð við handbolta og skák.


Kindur.

Hvernig get ég ennþá verið veikur? Þetta er orðið fínt, komin rúm vika. Hef ekki verið svona veikur í meira en 10 ár eða síðan ég fékk bronkítis hérna um árið. Það er þó ágætt að HM í handbolta er á meðan, styttir stundirnar. Skemmtilegur leikur gegn Frökkum. Ég ætla þó ekki að ræða hann neitt frekar. Lesendur geta bara farið tilviljunarkennt inn á íslenskar bloggsíður, tekið þaðan orð af sömu tilviljunarkennd og púslað saman eftir eigin höfði – ja, eða bara á tilviljunarkenndan hátt ef menn eru mjög villtir. Niðurstaðan ætti með góðum líkindum að vera það sem ég vildi sagt hafa um leikinn. Hitt vildi ég frekar ræða, að stundum er gaman að vera kind!  

Það sem ég á við,  er að fátt finnst mér ömurlegra en fólk sem hagar sér eins og kindur – svona almennt. Hagar sér eins, gerir það sama, hefur sömu skoðanirnar og er í liðinu. Reyndar er þráin eftir frumleika stundum of mikil. Tjörvi félagi minn nennir stöku sinnum ekkert að taka mark á mér, segir að eitthvað sé nú ekkert mín skoðun – bara smá kindakomplexar. En það er nú fátt ófrumlegra en að ræða ófrumleika, enda er það ekki ætlunin. Ég ætlaði einmitt að dásama það að vera kind. Það er einhver dýrsleg nautn við að vera hluti af stórri heild, standa með og styðja sitt lið. Þetta leyfi ég mér þegar íslenska landsliðið á í hlut eða FH. Finnst það ágætt fyrirkomulag. Það er nauðsynlegt að slökkva stundum á rökleiðslunum og styðja bara í blindni. Það er einfalt að sjá að Þróunarkenningin hefur útbúið manninn þannig að honum er umbunað fyrir slíkt. Genin í “sóló”-forverum okkar enduðu væntanlega oftast “sóló”. Þarna skal mín lína dregin. Hún færist þó líklega fram og til baka um ævina en vonandi aldrei svo langt að mér finnist það frábær hugmynd að sitja í Háskólabíói, klappandi í 10 mínútur undir lélegu U2-lagi ásamt hundruðum samstarfsmanna af því að einhver almannatengsla skrifstofa hélt það kæmi svo vel út í sjónvarpsfréttum.glitnir


Málþóf.

Alveg finnst mér málþóf vera frábær hugmynd og vanmetin. Þetta má nota svo víða. Það virðist bara enginn hafa áttað sig á því. Af hverju á stjórnarandstaðan að sitja ein að slíkum herbrögðum. Ég sé til dæmis fyrir mér nokkrar kjöraðstæður. Gunna segir við Jón: “Jón við þurfum að tala saman, ég held að þetta samband okkar gangi ekki”. Þá tekur Jón við og talar í marga daga um daginn og veginn, sambönd almennt, enska boltann og hvað sem honum dettur í hug. Eftir allt þófið get ég lofað að Gunna er búin að steingleyma öllum sambandserfiðleikum*. Fyrirtækið “Rakarar sem klippa rakara” er sakað um innherjaviðskipti – forstjórinn heldur blaðamannafund, útskýrir í löngu máli hvernig rakarar raka sjaldnast fólk heldur klippa, hvernig David Beckham hafi innleitt kitch-ið í bransann o.s.frv. Fyrirtækið myndi pottþétt sleppa við ákærur. Síðast en ekki síst vil ég biðja Alfreð landsliðsþjálfara að hafa þetta í huga ef öxl ein sem hefur angrað landsmenn í marga mánuði fer að gefa sig. Þá er mikilvægt að vinna tíma með því að taka upp málþóf við dómarann og eftirlitsmenn í Þýskalandi. Nógu lengi svo hægt verði að tjasla saman axlargreyinu, því annars er voðinn vís. Áfram Ísland!

*Nema ef vandamálið var að Jón hlustaði aldrei á Gunnu, þá fór hann líklega úr öskunni í eldinn.

Duglegir stjórnmálamenn.

Ætli sé ekki bara kominn tími á smá pólitík. Ég hef velt aðeins fyrir mér hvort það sé endilega fýsilegt að stjórnmálamenn séu atorkusamir, hamhleypur til verka og það leki af þeim drifkrafturinn eins og þeim “bestu” er stundum lýst. Tökum dæmi. Hvernig starfskraftur væri ökumaður strætisvagns sem hefði ofangreinda kosti sem sína helstu? Myndi hann keyra hraðar, taka leið S1 og S2 saman í einni ferð, stoppa oftar – kannski heima hjá viðskiptavinum eða jafnvel fylgja fólki til sætis í vagninum. Eitthvað held ég að sá starfskraftur yrði ekki langlífur í starfi. Bílstjórinn á fyrst og fremst að halda áætlun og geta brugðist við ef eitthvað óvænt gerist. 

Fólkið sem velur að hasla sér völl á sviði stjórnmála er oftar en ekki einhver félagsmálatröll sem lifa á því að koma hugmyndum sínum í framkvæmd og fá hrós fyrir. Þegar lúsiðnu atorkutröllin komast loks til valda, í bæjarstjórn, á þing eða eitthvað þaðan af verra, þá verða þau auðvitað að setja mark sitt á umræddan vettvang. Þau byrja að framkvæma, byggja, breyta, semja lög o.s.frv. Það er á þessum tímapunkti sem mér finnst mörg tröllanna vera eins og bílstjóri strætisvagns sem keyrir á 150, tekur leið S1 og S2 saman og stoppar við hvert hús. Stundum eru hlutirnir bara í ágætu lagi og mikilvægast að halda áætlun.

Skýrasta dæmið undanfarin ár er meistari Björn Bjarnason. Maður sem fengi mannlýsingu í Íslendingasögu með innihaldi á borð við: fjell aldrei verk úr hendi, berserkur til allra verka, uppfinningasamur og var fyrir Guðlega forsján blessunarlega laus við ágang kvenna. Slíkum manni leiðist hratt og örugglega ef hann er ekki á fullu að gera eitthvað. Þar með finnur hann upp á því að stofna her, leyniþjónustu, vopna lögregluna betur, bara eitthvað svo það líti út fyrir að hann geri eitthvað í vinnunni.  Ég held að miklu farsælla væri að hafa töluverða framkvæmdatregðu, þá væri ekki farið út í framkvæmdir nema þær væru bráðnauðsynlegar. Vandamálið er að fólk með framkvæmdatregðu býður sig ekki fram í þessi störf. Það myndi þó hjálpa að fækka ráðuneytum og auka frí þingmanna. Þannig ynnist ekki tími fyrir nema allra mikilvægustu mál og við fengjum að lifi í friði fyrir óþarfa vinnugleði félagsmálatröllanna.

Vissulega eru mörg störf þar sem fyrrnefndir mannkostir eru eftirsóknarverðir. Embættisstörf held ég að séu bara ekki þeirra á meðal.

Aumingi.

Þá kemur fyrsta aumingjabloggið. Ég varð auðvitað að vera hrokafullur í fyrsta bloggi – annað væri hneyksli. Nú ætla ég hins vegar bara að væla. Ástæðan er sú að ég ligg veikur heima og drepleiðist. Búinn með internetið og sjónvarpið og fæ hausverk af því að lesa. Ég hefði samt ekki byrjað þessa aumingjafærslu án þess að koma færandi hendi – maður er nú ekki dýrlingur fyrir ekki neitt. Það er nefnilega þrennt sem hefur stytt mér stundirnar síðustu daga og vil ég benda aumingjum allra landa á þessa möguleika.
  1. Skoða allar teiknimyndasögur Dananna Wulff og Morgenthaler frá upphafi.
  2. Lesa öll Orð vikunnar eftir Mörð Árnason. Áberandi er hve hann er miklu betri íslenskufræðingur en stjórnmálamaður.
  3. Hlusta á Orð skulu standa síðustu tveggja vikna. Besti útvarpsþáttur landsins og fer leynt með það eins og RÚV-manna er von og vísa.
Reyndar má telja þessa bloggfæðingu með í upptalningunni en ég var búinn að segja að þetta væru þrjú atriði og vil ekki missa trúverðugleikann svona strax í öðru bloggi.

Málsvörn bloggarans.

Af hverju bloggar fólk?

Það hefur skoðanir sem verða að komast út til almennings.

Það vill taka virkan þátt í þjóðfélagsumræðunni.

Það vill láta fjarskylda vita hvernig lífið gengur fyrir sig.

Það vill salta í sár Liverpool-aðdáenda á opinberum vettvangi.

Það vill halda uppi nettri síðu með félögunum til að segja sögur af fylleríum og kvennafari (karlafari).

Það hefur alltaf haldið dagbók og datt sí svona í hug að halda hana á netinu.

OG SVO FRAMVEGIS...

Kjaftæði! Ástæðan er sjálfsást og fátt annað. Fólk býr til heim þar sem það fær að vera aðalnúmerið og sjálfsástin blómstrar. En það er erfitt að vera ástfanginn af einhverjum sem enginn samþykkir að sé fallegur. Þess vegna vanda bloggálfarnir sig við að líta alltaf öðru hvoru á hvern annan, vitandi að viðlitið verður endurgoldið. Þannig fæst samþykki fyrir eigin fegurð og sjálfsástarsambandinu er viðhaldið. Afleiðingin er síðan samfélag ástfanginna í bloggheimum og allir eru ánægðir.

Af hverju ætla ég þá að fara að taka þátt í þessu? Svarið liggur í augum uppi. Ég er mjööög ástfanginn af sjálfum mér. Eini gallinn er að ég er frekar latur að eðlisfari og gætu skrifin því orðið nokkuð stopul, sem aftur veldur því að enginn nennir að líta við og staðfesta mína bjargföstu trú um eigin fegurð og ágæti. Það er hins vegar smáatriði sem ég mun algerlega leiða hjá mér.


« Fyrri síða

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband